Ryð gagnrýni

UM RYÐ:RYÐ er sálfræðidrama um uppgjör og endanlega upplausn 
fjölskyldu sem haldið hefur verið saman á lygum. Lárus Ýmir 
Óskarsson hefur valið þá leið að segja hina átakanlegu 
uppgjörssögu refjalaust án þess að glata hinum skáldlega 
undirtón. Útkoman verður þétt frásögn; tálguð atburðarás 
sem fellur vel að hinum tiltölulega einfalda söguþrœði, 
fléttuð ljóðrœnum landslagsmyndum og holdgerðum minningum," 

segir m.a. í kvikmyndadómi Ingólfs Margeirssonar um nýjustu 
kvikmynd Lárusar Ýmis Óskarssonar, RYÐ.

Tálgaður þriller með ljóðrænum undirtón

Regnboginn: RYÐ, íslensk 1990.

Leikstjóri: Lárus Ymir Óskarsson.

Handrit: Ólafur Haukur Símonarson 
(eftir Ieikriti hans „Bílaverkstæði Badda").

Leikmynd og búningar: Karl Júlíusson.

Tónlist: Wim Mertens, Egill Ólafsson.

Kvikmyndataka: Göran Nilsson fsf.

Framleiðandi: Sigurjón Sighvatsson.

Aðalleikarar: Bessi Bjarnason, Egill Ólafsson, Sigurdur Sigurjónsson, 
Christine Carr, Stefán Jónsson, Þórhallur Sigurðsson.

Það er vandasamt verk að færa sviðsverk yfir í kvikmynd. Leikrit lýtur allt 
öðrum lögmálum en kvikmyndin og ef kvikmyndaútgáfan á að halda 
sjálfstæðu lífi, þurfa talsverðar umskriftir og áherslubreytingar að koma til.

Lárusi Ými Óskarssyni kvikmyndaleikstjóra hefur í flestöllu tekist þetta 
vandasama verk. Í samvinnu við handritshöfundinn, Ólaf Hauk Símonarson, 
hefur Lárus Ýmir skorið textann úr „Bílaverkstæði Badda" niður í áhrifamikið 
myndmál og sterkar nærmyndatökur látnar tala sínu máli. Engu að síður falla 
leiksviðslegar setningar í kvikmyndinni, einkum í samtölum bifvélavirkjanna 
í fyrri hluta myndarinnar.

RYÐ segir frá bifvélavirkjanum og ekkjumanninum Badda (Bessi Bjarnason) 
sem rekur lítið fjölskyldubílaverkstæði á afskekktu nesi. Allt er í mikilli 
niðurníðslu og undir kraumar ógæfa og myrk fortíð sem einkum 
endurspeglast í taugaveikluðum börnum hans, Sissu (Christine Carr) og 
Haffa (Stefán Jónsson). Á bílaverkstæðið kemur strokufanginn Pétur 
(Egill Ólafsson) eftir langa Brasilíudvöl. Hann á harma að hefna; var dæmdur 
saklaus fyrir morð á eiginkonu Badda(Guðlaug María Bjarnadóttir) og vill fá 
leiðréttingu mála sinna.

RYÐ er sálfræðidrama um uppgjör og endanlega upplausn fjölskyldu sem 
haldið hefur verið saman á lygum. Lárus Ýmir Óskarsson hefur valið þá leið 
að segja hina átakanlegu uppgjörssögu refjalaust án þess að glata hinum 
skáldlega undirtón. Útkoman verður þétt frásögn; tálguð atburðarás sem 
fellur vel að hinum tiltölulega einfalda söguþræði, fléttuð ljóðrænum 
landslagsmyndum og holdgerðum minningum.

Leikurinn í RYÐI er tvímælalaust sá besti sem íslensk kvikmynd hefur boðið 
upp á hingað til. Bessi Bjarnason sýnir dramatískan stóríeik í hlutverki Badda 
og bætir óvænt alveg nýjum tragískum þætti við á litríkt persónusafn sitt 
gegnum tíðina.

Egill Ólafsson er öruggur sem Pétur; mildur og myrkur í senn. 
Sigurður Sigurjónsson er tragíkómískur sem Raggi, hinn kokkálaði 
bifvélavirki,og hleypir léttum anda inn í hið annars dapra andrúmsloft 
myndarinnar. Christine Carr sýnir mikinn næmleika í þöglum nærmyndum 
og sömu sögu má segja af Guðlaugu Maríu Bjarnadóttur. En af öllum góðum 
leikurum ólöstuðum, þá er stjarna myndarinnar Stefán Jonsson sem leikur 
hinn firrta Haffa sem tjáir tilfinningar sínar og vanlíðan í myndverkum uppi 
um alla veggi og glugga bílaverkstæðisins. (Magnús Kjartansson 
myndlistarmaður á mikið hrós skilið fyrir þær myndskreytingar; þær eru 
listilegar og skila sönnu andrúmslofti.) Ég er illa svikinn ef með Stefáni 
Jónssyni er ekki nýr íslenskur stórleikari fæddur. Hinn öruggi leikur allra 
leikaanna sannar bæði hæfileika þeirra og mikla 
leikstjórnarkunnáttu leikstjórans.

Tæknivinnan í RYDI er fagmannleg. Klipping, hljóð, kvikmyndataka; allt er 
þetta með því besta sem sést hefur í íslenskri kvikmynd. Leiktjöld og 
búningar Karls Júlíussonar frábær og sérstaklega bílaverkstæðið sjálft, sem 
er einkar trúverðugt.

Lárus Ýmir Óskarsson er í fremstu röð íslenskra kvikmyndaleikstjóra. Með 
RYÐI hefur Lárus Ýmir enn sannað hæfileika sína sem leikstjóri. Hann hefur 
bæði þá þekkingu og reynslu sem þarf til að halda utan um hina mikla vinnu 
sem felst í gerð leikinnar kvikmyndar, listrænt innsæi og mannþekkingu á 
persónum (og leikendum) og frásagnarhæfileika til að halda athygli 
áhorfenda óskertri.

RYÐ er ósvikin, íslensk kvikmyndaperla.

Ingólfur Margeirsson